Bæjarráði hefur borist tvö erindi frá Knd. Þróttar
Knattspyrnudeild Þróttar sendi formlegt erindi til bæjarráðs þar sem óskað var eftir samtali um að taka yfir umsjón og umhirðu á knattspyrnusvæði sveitarfélagsins. Erindið varðar daglega starfsemi og önnur tilfallandi verkefni, í seinna erindi óskar knattspyrnudeild Þróttar eftir formlegum fundi með bæjarráði til að ræða stöðu meistaraflokks félagsins, aðstöðumál og framtíðaráherslur sem skipta miklu fyrir áframhaldandi uppbyggingu íþróttastarfs í Vogum. Síðustu ár hefur starfsemin vaxið og í því samhengi teljum við mikilvægt að skýra betur hlutverk, forgangsröðun og sameiginleg markmið þegar kemur að aðstöðu og meistaraflokksstarfi í sveitarfélaginu.
Knattspyrnudeild Þróttar óskaði sömuleiðis svara við eftirfarandi spurningum.
Hver er stefna sveitarfélags Voga varðandi meistaraflokksstarf í knattspyrnu?
Hvaða framtíðarsýn hefur sveitarfélagið um uppbyggingu og viðhald knattspyrnusvæðisins?
Hvernig hyggst sveitarfélagið tryggja fullnægjandi aðstöðu til æfinga og leikja á næstu árum?
Er fyrirhugað að endurskoða framlög til knattspyrnudeildarinnar, með hliðsjón af kostnaði og samanburði við önnur félög á svæðinu ?
Er vilji hjá sveitarfélaginu til að styðja við stofnun meistaraflokks kvenna og hvaða stuðning má vænta í því samhengi?
Stjórn knattspyrnudeildar óskar eftir formlegum fundi við bæjarráð á næstu vikum til að ræða þessi mál og móta sameiginlega framtíðarsýn um knattspyrnustarf í bænum.
„Við þurfum skýra stefnu og heiðarlegt samtal. Það hjálpar bæði okkur og sveitarfélaginu að taka sameiginleg skref fram á við,“
segir Anton Helgi Hermóðsson, formaður knattspyrnudeildar.
Sjálfboðaliðar hafa gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu félagsins undanfarin ár og það undirstrikar mikilvægi þess að móta skýra framtíðarsýn þannig að hægt sé að skipuleggja starfið til lengri tíma.
„Stjórnarliðar, sjálfboðaliðar og aðrir innan félagsins hafa alltaf verið reiðubúin að leggja sitt af mörkum. Nú þarf félagið að vita hvert bæjarfélagið ætlar næstu árin og hvernig við vinnum þetta saman til framtíðar,“
bætir Anton við.
Knattspyrnudeild Þróttar hlakkar til að eiga uppbyggilegt samtal við bæjaryfirvöld á næstu vikum. Við trúum því að með samvinnu og skýrum markmiðum megi skapa sterka og bjarta framtíð fyrir knattspyrnuna í Vogum – fyrir unga fólkið okkar, fjölskyldur og allt samfélagið.