Stjórnarfundur 200 - Sunnudaginn 12. október 2025 í félagsherbergi UMFÞ.

Mættir: Berglind Petra Gunnarsdóttir, Kristín Arna Hjaltadóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Martyna Lozinska, Karel Ólafsson, Kristinn Þór Guðbjartsson, Gísli Magnús Torfason. Einnig situr Marteinn Ægisson framkvæmdastjóri fundinn.

Berglind Petra Gunnarsdóttir formaður ritar fundargerð.

Fundur settur kl. 10

Dagskrá fundar:

 

1.           Sunddeild Þróttar.

Thelma sundþjálfari er undir þessum lið. Farið yfir minnisblað/áætlun frá þjálfara og framkvæmdastjóra.

 

2.           Lagabreytingar vegna ábendinga um almannaheillafélag.

Við síðustu almannaheillaskráningu kom ábending frá skattinum að félagið þyrfti að laga og breyta einni grein. Björg Ástu falið að vinna að tillögu að lagabreytingu fyrir aðalfund UMFÞ sem fram fer mánaðarmótin febrúar og mars.

 

3.           Kvenfélagið Fjóla 100 ára.

Kvenfélagið Fjóla átti stórafmæli 5. júlí og mun halda upp á tímamót laugardaginn 1. nóvember. Formaður Þróttar mun mæta fyrir hönd félagsins ásamt öðrum fulltrúum stjórnar. Stjórn UMFÞ óskar Kvenfélaginu Fjólu innilega til hamingju með tímamótin.

 

4.           Íþróttaráðstefna Suðurnesja.

Ráðstefna um íþróttamál á Suðurnesjum fór fram 24. septeber þar sem hagsmunaaðilar frá íþróttafélögum, bæjaryfirvöldum, foreldrar, sjálfboðaliðar og aðrir sem láta sig málið varða komu saman og fóru yfir áskoranir og sóknarfæri sem blasa við íþróttahreyfingunni á Suðurnesjum. Ráðstefnan var haldin af Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar (ÍRB) & Íþróttabandalagi Suðurnesja (ÍS) Svæðisfulltrúar íþróttahéraða á Suðurnesjum sáu um skipulag og utanhald fyrir þeirra hönd. Framkvæmdastjóri lagði fram upplýsingar sem komu fram á ráðstefnunni. Tölfræði yfir þátttöku barna í skipulögðu íþróttastarfi á Suðurnesjum, styrkir sveitarfélaga til æskulýðs - og íþróttamála og útgjöld sveitarfélaga til æskulýðs - og íþróttamála. Upplýsingarnar voru unnar af svæðisskrifstofu og kom fram að þær væru úr skilakerfi ÍSÍ og ársreikningum sveitarfélaga.

 

5.           Umsóknir í sjóði.

Framkvæmdastjóri kynnir hvatasjóð íþróttahreyfingar, fræsðlu og verkefnasjóð UMFÍ og hvetur alla stjórnarliða til að kynna sér þá sjóði sem eru í boði.

 

6.           Lokahóf – KND.

Lokahóf knattspyrnudeildar fór fram 27. september og tók aðalstjórn verkefnið að sér fyrir knattspyrnudeild félagsins. Lokahófið heppnaðist einstaklega vel og var góð mæting í Tjarnasal. Félagið þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum sem gáfu vinnuna sína og gerðu þetta að ógleymanlegu kvöldi.

7.           Ályktun aðalfundar UMFÞ 2025.

Farið yfir bókanir aðalfundar undir öðrum málum á aðalfundi Þróttar 2025.

8.           Styrktarbeiðni til sveitarfélagsins fyrir 2026.

 

Þróttur V, óskaði eftir 30% hækkun fyrir árið 2026.  Iðkendum og flokkum hefur fjölgað sem leiðir til frekari útgjalda. Félagið þarf að geta hafið störf fyrr á daginn. Með farsæld barna að leiðarljósi og samfélagið kallar eftir meiri samveru

fjölskyldna verður félagið að bjóða upp á æfingar í samfellu við grunnskóla fyrir yngstu iðkendur. Aðstöðuleysi í Sveitarfélaginu Vogum gerir það að verkum að meistarafokkur félagsins æfir utan Voga sjö mánuði ársins og yngriflokkar þurfa einnig að leigja keppnis og æfingaaðstöðu.

Ferðakostnaður hefur hækkað og mótsleikjum hefur fjölgað verulega. Lækkun hefur orðið á styrk frá Sveitarfélaginu Vogum til félagsins síðustu ár. Allur kostnaður íþróttafélaga hefur hækkað í samræmi við aðrar hækkanir síðustu árin.

Lottótekjur félagsins fyrir árið 2023 voru 3,5 m kr. og með innkomu íþróttabandalaga og íþróttahéraða hafa lottógreiðslur lækkað í dag um 65%.

 

9.           Dósagámur.

Þar sem skrifstofa félagsins verður lokuð frá 27. október og starfsmaður mætir aftur til starfa 20. nóvember munu stjórnarliðar fylgjast með dósagám næstu vikur.

 

 

Önnur mál:

Formaður leggur til að næstu tveir stjórnarfundir verði 6. nóvember og 27. nóvember. Samþykkt samhljóma.

Fundi slitið kl. 12:45.

Previous
Previous

Stjórnarfundur 201 - 6.11.2025

Next
Next

Fékkstu vinning ? Takk fyrir stuðninginn - Elskum ykkur !